Innlent

Hafa lagað sig að lífi á bótum

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason

 Atvinnulaus ungmenni á aldrinum 18 til 24 ára hafa mörg hver aðlagað sig því líferni að vera á bótum. Þetta kemur fram í niður­stöðum rýnihópagreiningar sem kynnt var á fundi norrænna atvinnumálaráðherra sem fram fór í Reykjavík í síðustu viku. Kannaðar voru aðstæður og viðhorf í fimm hópum, þremur í Reykjavík og tveimur á Suðurnesjum. Í greiningunni kemur fram að í mörgum tilvikum búi ungmennin í foreldrahúsum, hafi snúið sólarhringnum við og hafi hvorki áhuga á skóla né vinnu.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamála, segir að langtímaatvinnuleysi ungs fólks sé með alvarlegri vandamálum sem hér sé staðið frammi fyrir.

„Það virðist vera vaxandi tilhneiging til að ungt fólk verði eins og utanveltu og finni sig hvorki á vinnumarkaði né í skólakerfinu. Langtímaatvinnuleysi getur svo líka leitt til ótímabærrar örorku í framhaldinu og þetta er auðvitað vandi sem takast verður á við,“ segir hann, en málið var til umfjöllunar á fundi norrænna atvinnumálaráðherra sem hér fór fram í síðustu viku. „Langtímaatvinnulaus ungmenni hér núna eru um þrjú þúsund og þetta verður okkar stærsta viðfangsefni núna,“ segir Árni Páll.

Meðal þeirra vandamála sem staðið er frammi fyrir er að atvinnulausa fólkið unga lítur ekki á skólavist sem valkost í stöðu sinni. „Þau líta ekki til baka á veru sína í skóla að það sé einhver lausn, heldur sé það bara meira kvalræði. Þetta er því krefjandi viðfangsefni að binda betur saman menntakerfið og atvinnuleysistryggingakerfið en gert hefur verið hingað til,“ segir Árni. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×