Íslenski boltinn

Davíð: Bara sigurvegarar í FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson, leikmaður FH.
Davíð Þór Viðarsson, leikmaður FH.
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var hæstánægður með sína menn eftir 2-1 sigur á KR á útivelli í kvöld.

KR komst yfir í leiknum en FH skoraði tvívegis á lokakafla leiksins. Það er ekki í fyrsta sinn í vor sem FH lendir undir en vinnur svo góðan sigur.

„Þetta var alvöru baráttuleikur þó svo að fótboltinn hafi ekkert verið sérstakur á stundum. En við gerðum þó fullt af fínum hlutum og sýndum enn og aftur góðan karakter."

„Logi (þjálfari KR) þekkir okkur vel og lagði leikinn vel upp fyrir KR. Þeir voru að valda okkur miklum erfiðleikum en þegar að líða tók á leikinn og þeir urðu þreyttari fengum við meira pláss. Við skorum svo tvö mörk eftir að hafa komist upp kantana og þar erum við hættulegastir."

„En KR er með frábært lið og verða án vafa í toppbaráttu deildarinnar í sumar."

Hann segir það góðs viti að FH geti vel unnið leiki þó svo að þeir lendi undir. „Það eru bara sigurvegarar í þessu liði. Við fengum að kynnast því á lokaspretti mótsins í fyrra er við urðum meistarar eftir góða rispu undir lok deildarinnar. Það kennir okkur að gefast aldrei upp."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×