Enski boltinn

Defoe vill aftur til Tottenham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jermain Defoe, leikmaður Portsmouth.
Jermain Defoe, leikmaður Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images
Jermain Defoe hefur viðurkennt að hann vilji fara aftur til Tottenham og spila undir stjórn Harry Redknapp sem keypti hann til Portsmouth frá Tottenham fyrir ári síðan.

Í haust tók svo Redknapp við liði Tottenham og vill nú Defoe fylgja honum aftur þangað.

Defoe var keyptur til Portsmouth fyrir 7,5 milljónir punda en nú er talið að Portsmouth vilji fá allt að tvöfalda þá upphæð fyrir hann nú.

„Ef Portsmouth nær ásættanlegu samkomulagi við Tottenham myndi ég vilja ræða við félagið," sagði Defoe í samtali við enska fjölmiðla. „Ég hef notið mín vel hjá Portsmouth en get ekki neitað því að mér þótti erfitt að sjá eftir Harry. En ég ber mikla virðingu fyrir Tony Adams og er okkar samstarf gott."

Adams, núverandi knattspyrnustjóri Portsmouth, sagðist vongóður um að halda Defoe hjá félaginu.

„Kannski að ég ræði sérstaklega við hann á mánudaginn þegar hann mætir á æfingu því fólk skiptir oft um skoðun," sagði Adams. „Ég er viss um að hann muni geta spilað næsta leik okkar gegn Manchester City en svo verðum við að sjá til."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×