Innlent

LSH: Yfirvinna skert og aksturssamningar afnumdir

Björn Zoega, forstjóri LSH.
Björn Zoega, forstjóri LSH. MYND/Heiða

Hátt í tvö þúsund starfsmenn Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH) hafa á síðustu dögum fengið send bréf þar sem þeim eru kynntar breytingar sem gera á á starfskjörum þeirra. Að sögn Björns Zöega forstjóra spítalans er um að ræða uppsögn á aksturssamningum auk þess sem föst yfirvinna verður lækkuð í 10 prósent af starfshlutfalli.

Björn segir að vilji fólk ekki samþykkja nýju kjörin sé það laust allra mála við spítalann að þremur mánuðum liðnum. Hann hefur þó ekki heyrt að mörgum sem ekki ætla sér að samþykkja breytingarnar. Þær eiga að taka gildi um áramót og er áætlað að spara um 100 milljónir á ársgrundvelli með því að skerða yfirvinnuna.

Uppsögn á aksturssamningum er samkvæmt fyrirmælum fjármálaráðuneytisins. Eftir sem áður mun spítalinn sjá um að koma fólki til starfa á tímum þegar almenningssamgöngur liggja niðri. Það verði annað hvort gert með því að greiða leigubílakostnað eða þá að viðkomandi starfsmaður haldi akstursdagbók. Að sögn Björns á eftir að koma í ljós hve mikið sparast með breytingunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×