Íslenski boltinn

Magnús Ingi: Lá ekki fyrir okkur í kvöld

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Magnús Ingi Einarsson.
Magnús Ingi Einarsson. Mynd/Daníel

„Þetta gekk ekki í kvöld hjá okkur og þetta fór ekki eins og við lögðum upp með,“ segir Magnús Ingi Einarsson, fyrirliði Fjölnis, eftir tap Fjölnis gegn Fram.

Hann segir leikinn þó hafa verið jafnan og sigurinn geta endað hvoru megin sem er.

„Það voru ágætis kaflar í þessu og heilt yfir var þetta nokkuð jafn leikur og þetta gat dottið hvoru megin sem er. Eftir að við skoruðum var mómentið meira með okkur en þeim, en því miður gátum við ekki nýtt okkur það til að skora. Svo skora þeir þegar 12 mínútur eru eftir og við náðum ekkert að svara því.“

Fjölnir virtist vera nokkuð lengi í gang en Magnús segir þó ekki vera þreytu í liðinu.

„Nei við erum búnir að fá ágætis hvíld þannig að það ætti ekki að skýra það. En bæði lið fóru nokkuð varkárlega inn í leikinn. Við komum síðan grimmari í seinni hálfleik og höfðum þá lagt upp með að halda áfram þó við værum búnir að fá á okkur mark væri það enginn heimsendir.

Þetta væri spurning um að spýta í lófana frekar en að gefast upp, eins og því miður við höfum nokkrum sinnum gert í sumar. Og mér fannst við gera það og það var mjög ánægjulegt. Við náðum að koma til baka og jafna leikinn en því miður átti þetta ekki fyrir okkur að liggja í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×