Innlent

Mikið uppnám innan Samfylkingarinnar vegna afsagnar

Frá þingflokksfundi Samfylkingarinnar í vor.
Frá þingflokksfundi Samfylkingarinnar í vor.

Þingflokkur Samfylkingarinnar er í miklu uppnámi eftir að Ögmundur Jónasson sagði af sér sem heilbrigðisráðherra í hádeginu í dag. Þá er mikill undirliggjandi pirringur af hálfu flokksins vegna ákvarðanna Vinstri grænna undanfarið í orkumálu samkvæmt heimildum Vísis. Vinstri grænir sitja núna á þingflokksfundi en Samfylkingin fundar klukkan fjögur.

Þá hefur verið boðað til ríkisstjórnarfundar klukkan sex í dag.

Þá sagði einn þingmaður innan Samfylkingarinnar að ástandið væri tvísýnt.

Vísir greindi frá því að líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði. Hún fellur ákveði þingflokkur VG að fylkja sér gegn breytingatillögu Icesave sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram á næstu dögum. Fáist ekki stuðningur herma heimildir fréttastofu að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, muni ganga á fund forseta Íslands og krefjast lausnar.

Ofan á ágreining flokkanna vegna Icesave málsins leggst djúpstæður pirringur Samfylkingarinnar vegna orkumála. Vinstri grænir lögðust gegn því að viljayfirlýsing um álver á Bakka yrði framlengd. Þá tók steininn úr í gær þegar Svandís Svavarsdóttir hnekkti úrskurði umhverfisstofnunnar um raflínur til Helguvíkur. Sú ákvörðun er talin seinka framkvæmdum talsvert.

Nú í hádeginu sagði Ögmundur svo af sér vegna andstöðu við Icesave málið. Óttast er að Ögmundur hafi eflt andstöðu þeirra sem voru á móti Icesvave í þingflokki VG með ákvörðun sinni. Heimildir herma að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, reyni hvað hann getur til þess að sætta ólík sjónarmið á milli flokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×