Íslenski boltinn

Guðmundur Steinarsson: Þessir 1-0 sigrar telja oft svo rosalega mikið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmunur Steinarsson lék á ný með Keflavík í kvöld.
Guðmunur Steinarsson lék á ný með Keflavík í kvöld.

Guðmundur Steinarsson lék sinn fyrsta leik með Keflavík á tímabilinu eftir að hafa verið í herbúðum Vaduz frá Liechtenstein í hálft ár. Guðmundur var mjög ógnandi í fyrri hálfleik og lagði síðan upp sigurmarkið í seinni hálfleik í 1-0 heimasigri Keflavíkur á Fylki.

„Það er ljómandi gott að vera kominn aftur í Keflavíkurbúninginn. Þetta er búið að vera löng bið og það er gott að vera kominn á stað aftur," sagði Guðmundur sem virtist vera að gera sig líklegan að skjóta sjálfur þegar Hólmar Örn Rúnarsson kom aðvífandi og skoraði sigurmarkið.

„Þetta er ein besta stoðsendingin sem sést hefur á þessum velli," sagði Guðmundur í léttum tón. „Þetta mark tryggði okkur þrjú stig og við héldum síðan hreinu. Það var bæði mjög mikilvægt fyrir okkur að ná í öll stigin en líka að halda markinu hreinu. Þessir 1-0 sigrar telja oft svo rosalega mikið og eru oft á tíðum mun sætari líka," sagði Guðmundur en með þessum sigri náði Keflavíkurliðið Fylkismönnum að stigum.

„Nú er í fyrsta sinn allur hópurinn kominn saman og tilbúinn að spila. Menn eru að koma til baka úr meiðslum og þegar allir eru klárir þá vitum við að við erum með sterkan hóp. Þetta var orðið svolítið þunnskipað fyrir nokkrum vikum en þegar við erum með fullskipað lið þá eigum við erindi á toppinn," sagði Guðmundur og hann var ánægður með vörnina.

„Það var stórkostleg að halda hreinu og það gefur öllum varnarleik liðsins mikið sjálfstraust. Þetta segir okkur að við vorum að gera eitthvað rétt í vörninni því þeir áttu ekki mikið af hættulegum færum," sagði Guðmundur ánægður og hann var líka sáttur við eigin frammistöðu.

„Þetta var örugglega ágætis leikur hjá manni en maður verður að sjá hann aftur til þess að geta dæmt hann. Ég hefði vissulega viljað setja mark enda sóknarmaður en sigurinn telur meira," sagði Guðmundur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×