Innlent

Icelandair skoðar minni þotur

Icelandair stefnir að ákvörðun í næsta mánuði um kaup á minni þotum í flugflotann. Boeing 757 yrði þó áfram aðalvél félagsins. Ólíklegt er að Dreamliner-vélarnar, sem eru í pöntun, verði teknar inn í áætlunarflugið.

Tveir áratugir eru frá því félagið tók 757-vélarnar í sína þjónustu og þetta er nú eina tegundin í flotanum, reyndar tvær gerðir, sem hvor um sig tekur í kringum tvöhundruð farþega.

Sigþór Einarsson, aðstoðarforstjóri Icelandair Group, segir að engin önnur vél henti betur leiðakerfi Icelandair en Boeing 757 og hún sé enn í háum gæðaflokki, þótt 5-6 ár séu frá því framleiðslu hennar var hætt. Ákvörðun hafi verið tekin um að hún verði áfram í rekstri félagsins að minnsta kosti fram yfir árið 2015.

Framtíðarvélin Dreamliner, eða Boeing 787, er nokkru stærri en 757 en Icelandair og systurfélag þess eiga fimm slíkar pantaðar. Líklegast þykir að þær verði leigðar öðrum eða seldar enda sjá menn ekki að þær séu að fara inn í leiðakerfi félagsins.

Áður rak félagið einnig Boeing 737 vélar samhliða 757 og nú er verið að skoða þann möguleika aftur að fá minni þotur, 100 til 160 sæta, og stefnt að ákvörðun í haust. Icelandair-menn áttu viðræður við Boeing í Seattle nýlega en 737 þykir sterklega koma til greina. Sigþór segir að Airbus og hin brasilíska Embraer séu einnig til skoðunar.

Ástæðan er sú að Boeing 757 þykir fullstór fyrir minni áfangastaði í Evrópu og hagkvæmara þykir að nota smærri vélar meðan nýjar flugleiðir eru að byggjast upp.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×