Innlent

Orkuveitan býst við að áfrýja dómnum

Hjörleifur Pálsson gerir ráð fyrir að dómnum verði áfrýjað
Hjörleifur Pálsson gerir ráð fyrir að dómnum verði áfrýjað
Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur gerir ráð fyrir að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem felur í sér að Orkuveitan þarf að greiða Hafnarfjarðabæ 7,6 milljarða króna vegna viðskipta með hlut í HS Orku hf. og HS Veitum hf.

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar, segir að búið hafi verið að gera ráð fyrir stjórnarfundi hjá Orkuveitunni á föstudaginn. Hann geri ráð fyrir að málið verði tekið upp þar og farið verði yfir forsendur dómsins. Hjörleifur segist ekki vera búinn að lesa forsendur dómsins en hann hafi heyrt þær lesnar yfir. „Niðurstaðan kemur mér og öðrum verulega á óvart. Sjálfur geri ég ráð fyrir að við munum láta reyna á þennan dóm fyrir Hæstarétti," segir Hjörleifur.

Forsaga málsins er sú að Orkuveitan keypti 16% í HS af Hafnarfjarðarbæ. Samkeppnisyfirvöld töldu að það stæðist ekki samkeppnislög að eiga svo stóran hlut og Orkuveitan þyrfti að minnka hlut sinn niður fyrir 10 %. „Og á sama tíma töldum við að okkur væri ekki heimilt að ganga frá kaupum á 5% í viðbót. Það gæti ekki gengið upp samkeppnislega séð," segir Hjörleifur. Orkuveitan hafi því ekki treyst sér til að ganga frá kaupunum. Dómurinn hafi hins vegar verið á annarri skoðun.

Hjörleifur segir að Orkuveitan hafi ákveðið að selja hlutinn og hann sé í söluferli. Komi einhver góður kaupandi og vilji kaupa þessa hluti þá verði þeir seldir. „En þegar við vorum að ganga í þessi viðskipti með Hafnfirðingum að þá vorum við líka að vinna í því að fjármagna kaupin og ef það verður niðurstaða Hæstaréttar að staðfesta dóminn að þá verðum við auðvitað að ganga í það að gera ráðstafanir ef til kemur til þess að við þurfum að borga þetta," segir Hjörleifur. Hann segir þó aðalmálið vera að Orkuveitan ætli sér ekki að eiga þennan hlut. Það standi til að selja hann.






Tengdar fréttir

Orkuveitan þarf að greiða Hafnarfjarðarbæ 7,6 milljarða

Hafnarfjarðarbær hafði betur í dag í dómsmáli gegn Orkuveitu Reykjavíkur og þarf Orkuveitan að greiða bæjarfélaginu rúma 7,6 milljarða króna auk dráttarvaxta, gegn afhendingu á hlutum í HS Orku hf. og HS Veitum hf., eða Hitaveitu Suðurnesja, auk 1500 þúsund króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×