Innlent

Slök útkoma helstu umhverfissinna

Kristján Már Unnarsson skrifar

 

Hörðustu talsmenn umhverfisverndar fengu slaka útkomu í prófkjörum Samfylkingar og Vinstri grænna. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, kveðst þó hafa mestar áhyggjur af því að í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki séu engir til umræðu um þennan málaflokk.

Umræða um náttúrvernd var áberandi í aðdraganda þingkosninganna fyrir tveimur árum. Núna fara helstu talsmenn þessa málaflokks halloka í prófkjörum. Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, hafnaði í fjórða sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og núverandi umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, hafnaði í sjötta sæti hjá Vinstri grænum í Reykjavík. Þá lenti Mörður Árnason í níunda sæti og Dofri Hermannsson í ellefta sæti hjá Samfylkingunni í Reykjavík en þeir hafa verið talsmenn Græna netsins í flokknum.

Formaður Náttúrverndarsamtaka Íslands lýsir vonbrigðum og kveðst hafa viljað sjá suma einstaklinga ofar. Árni Finnsson bendir þó á að meðal þeirra sem lentu ofarlega séu einstaklingar sem lýst hafi stuðningi við umhverfismál og nefnir Svandísi Svavarsdóttur hjá Vinstri grænum og Skúla Helgason hjá Samfylkingunni.

Hann segist hafa meiri áhyggjur af hinum flokkunum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, þar séu engir til umræðu um umhverfismál. Ekki taki því að nefna Frjálslynda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×