Innlent

Ræða misbeitingu valds

Nefnd breskra þingmanna tekur á móti indefence-hópnum og undirskriftunum. nordicphotos/afp
Nefnd breskra þingmanna tekur á móti indefence-hópnum og undirskriftunum. nordicphotos/afp

Indefence-hópurinn svonefndi, sem efndi í vetur til undirskriftasöfnunar á netinu til að mótmæla ákvörðun breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkavarnalögum gegn íslenskum bönkum og stjórnvöldum í októ­ber síðastliðnum, mun á morgun, þriðjudag, afhenda þær rúmlega 83.000 undirskriftir sem safnast hafa við athöfn í breska þinginu í Westminster í Lundúnum.

Á móti undirskriftunum taka þingmenn úr tengslanefnd breska þingsins við Alþingi, en auk þeirra munu fulltrúar indefence-hópsins hitta Evrópumálaráðherrann Caroline Flint og Angelu Eagle, æðsta fulltrúa þingsins gagnvart fjármálaráðuneytinu.

„Íslendingar hafa ekki formlega mótmælt beitingu hryðjuverkalaganna hingað til,“ segir Ólafur Elíasson, einn indefence-manna. „Við munum krefja þá bresku ráðamenn sem við hittum skýringa á því hvers vegna hryðjuverkalögum var beitt gegn Íslendingum og koma á framfæri röksemdum okkar fyrir því hve mikil misbeiting valds fólst í þeirri ákvörðun.“

Ólafur segir kjarna málsins þann að með beitingu þessara umdeildu laga hafi bresk stjórnvöld gert sig sek um að beita litla bandalagsþjóð „handrukkunaraðferðum“. - aa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×