Innlent

Þjóðin sögð ráða við ábyrgðina á Icesave

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í gær að það hvarfli ekki að henni að frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-samningsins verði fellt á Alþingi.

Á blaðamannafundi forsætisráðherra með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra og Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra í gær var kynnt að trúnaði væri aflétt af 68 skjölum sem tengjast Icesave-málinu og að þingmenn fái aðgang að 24 öðrum skjölum.

Jóhanna sagði ríkisstjórninni hafa verið nauðugur einn kostur að semja um Icesave. Steingrímur sagðist hafa miklar áhyggjur af stöðunni ef Alþingi felldi samninginn. „Það er ekki einu sinni víst að menn myndu byrja á byrjunarreit," sagði hann.

Viðskiptaráðherra sagði fráleitt að halda því fram að þjóðin réði ekki við skuldbindingar sínar vegna Icesave-ábyrgðarinnar. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sögðust í gær ekki hafa skipt um skoðun á málinu þrátt fyrir birtingu trúnaðargagnanna.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, kvað frumvarpið tilraun ríkisstjórnarinnar til að réttlæta samning sem hún hafi komist að niðurstöðu um og um leið tilraun til að varpa frá sér ábyrgð. Á því hefði verið haldið eins og venjulegum lánssamningi en ekki milliríkjadeilu.

Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Borgarahreyfingarinnar, sagðist hafa styrkst í andstöðu sinni við samninginn. Farsælast fyrir þjóðina væri að semja að nýju.

„Það er algjörlega ótækt og stórhættulegt að ríkið taki á sig þessar skuldbindingar," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Frumvarpið var kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna um helgina og tók þar nokkrum breytingum áður en það fór fyrir ríkisstjórn á mánudag. Nefna má auknar skýringar á endurskoðunarákvæðum, betrumbót á skuldaþoli og skýringar á eftirlitshlutverki Fjármálaeftirlits og Seðlabanka í aðdraganda hruns. Frumvarpið verður rætt á þingi á morgun. Einhver andstaða er enn fyrir hendi innan vinstri grænna, en heimildir blaðsins herma að æ fleiri þingmenn sjái samninginn sem einu færu leiðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×