Innlent

Sjö-núll fyrir Íslendingum

Frá mótmælunum Þótt mótmælendurnir hafi verið fáir gátu þeir huggað sig við mikinn sigur gegn Ísraelsmönnum á Kópavogsvelli í gær.Fréttablaðið/anton
Frá mótmælunum Þótt mótmælendurnir hafi verið fáir gátu þeir huggað sig við mikinn sigur gegn Ísraelsmönnum á Kópavogsvelli í gær.Fréttablaðið/anton

Íslendingar sigruðu Ísraela með sjö mörkum gegn engu í leik U17-liða kvenna á Kópavogsvelli í gær. Þar af skoraði Þórdís Sigfúsdóttir tvö mörk, með mínútu millibili. Leikurinn var þáttur í undankeppni fyrir Evrópumótið 2011.

Félagið Ísland-Palestína hafði boðað til kurteislegra mótmæla á leiknum, til að minna á að „Ísrael skuli sniðgengið á sviði viðskipta, menningar- og íþróttaviðburða á meðan ísraelsk yfirvöld neita að fara að samþykktum Sameinuðu þjóðanna“.

Um tíu manns voru að mótmæla þegar ljósmyndara blaðsins bar að garði.

Lögreglumenn voru á staðnum og talað um að óeinkennisklæddir sérsveitarmenn væru þar einnig.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Kópavogi og vallarstjóri Kópavogsvallar, gat ekki staðfest þetta.

„Þetta er ekki vinnunúmerið mitt sem þú ert að hringja í, þetta er einkanúmerið mitt,“ sagði hann í upphafi samtals. Miklu skipti í hvort númerið væri hringt.

Spurður seinna í samtalinu hvort hann gæti staðfest þetta með sérsveitarmennina sagði hann:

„Nei, enda tala þeir ekkert sérstaklega við mig. Það er bara opið, ekki selt inn eða neitt.“

Hann vissi þó til að lögreglubíl hefði verið lagt fyrir utan. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×