Lífið

Föstudagsfiðrildi í miðbænum

Ása Hauksdóttir er deildarstjóri menningarmála hjá Hinu húsinu.
Ása Hauksdóttir er deildarstjóri menningarmála hjá Hinu húsinu. Mynd/GVA

Á hádegi í dag hófst fyrsta Föstudagsfiðrildi sumarsins hjá H2, skapandi sumarhópum ungs fólks sem vinna í þágu menningar og lista á vegum Hins hússins. Á Föstudagsfiðrildunum leika sumarhóparnir listir sínar fyrir gesti og gangandi. Alls verða haldin þrjú fiðrildi yfir sumarið.

Ása Hauksdóttir, deildarstjóri menningarmála hjá Hinu húsinu, segir fiðrildið hafa farið vel af stað. „Ég er búin að vera á hlaupum um stræti borgarinnar í dag," segir Ása. „Maður finnur að borgarbúar og ferðamenn eru glaðir með framlag unga fólksins til götumenningarinnar."

Meðal þess sem fyrir augu gesta ber eru Gúmmískáld sem flytja ljóð á götum úti, hópurinn Takk&Takk sem veitir viðurkenningar og óvenjulegur leiðsögumaður, Crymoguide, sem kynnir ferðir um borgina á Rikshaw hjólavagni.

Ása segir H2-hópana glíma við niðurskurð, en í ár hlutu aðeins átta hópar styrk frá Hinu húsinu til að vinna að hugmyndum sínum. Í fyrra voru hóparnir tólf. Hún segist þó setja á sig bjartsýnisgleraugun í stað þess að örvænta.

„Þó þetta séu fáir hópar, þá endurkasta þeir virkilega líf og lit á sitt nánasta umhverfi," segir Ása glöð í bragði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.