Fótbolti

Bilic vill halda áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Slaven Bilic og Fabio Capello.
Slaven Bilic og Fabio Capello. Nordic Photos / Getty Images

Slaven Bilic, landsliðsþjálfari Króatíu, vill gjarnan halda áfram í því starfi eftir að samningur hans rennur út í lok undankeppni HM 2010.

Bilic hefur náð góðum árangri með Króatíu og stýrði liðinu í fjórðungsúrslit á EM 2008 í fyrra þar sem liðið tapaði fyrir Tyrklandi.

Liðinu hefur þó ekki gengið eins vel í undankeppni HM 2010 og þarf að fara í gegnum umspil til að eiga möguleika á að komast á HM í Suður-Afríku á næsta ári.

„Það er ekkert nýtt að ég vilji halda áfram," sagði Bilic. „Mér líður vel og maður ætti ekki að flýta sér í burtu þaðan sem manni líður vel. Þetta er ómetanleg reynsla."

„En þetta er ekki bara undir mér komið. Við vitum ekki enn hvort að knattspyrnusambandið vill halda mér, hvort sem við komumst á HM eða ekki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×