Innlent

Belginn gripinn í miðbæ Keflavíkur

Lögreglumenn á Suðurnesjum fundu rétt um sexleytið í morgun belgískan karlmann, sem leitað hefur verið síðan hann slapp úr höndum lögreglunnar á sjönda tímanum í gærkvöldi. Þá var verið að flytja hann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til gegnumlýsingar vegna gruns um að hann væri að smygla fíkniefnum innvortis.

Upphaflega var hann handtekinn við komuna til landsins síðdegis í gær. Sporhundi var meðal annars beitt við leitina að honum í gærkvöldi, en árvökulir lögreglumenn sáu svo til hans á gangi í miðbæ Keflavíkur undir morgun. Hann tók strax til fótanna þegar hann varð lögreglunnar var, en lögreglumenn hlupu hann uppi. Maðurinn, sem er um tvítugt, á afbrotaferil að baki í Belgíu, en er þó ekki eftirlýstur þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×