Erlent

Rasmussen gefur formlega kost á sér

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, gaf í dag formlega kost á sér í embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Hann nýtur stuðnings Evrópuveldanna og Bandaríkjanna. Tyrkir eru alfarið á móti því að hann taki við embættinu og gæti það tafið ákvörðun fram á mitt sumar.

Nokkur spenna er á götum Strassborgar í Frakklandi og Kehl og Baden Baden í Þýskalandi þar sem leiðtogafundur NATO er haldinn í dag og á morgun. Þetta er afmælisfundur en sextíu ár eru liðin frá stofnun bandalagasins.

Lögregla er í viðbragðsstöðu því búist er við miklum mótmælum. Til smávægilegra átaka kom í Baden Baden í dag.

Spennan er þó engu minni inni á fundarstöðunum þar sem tekist er á um hver verði næsti framkvæmdastjóri á eftir hollendingnum Jaap de Hoop Scheffer sem er að láta af embætti.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, gaf formlega kost á sér í dag en hann hefur lengi verið orðaður við embættið.

Bandaríkjamenn styðja hann í embættið og Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði síðdegis að hann væri fyrirtaks umsækjandi. Tyrkir vilja hins vegar ekki sjá hann í embættinu vegna þess að hann hafi ekki tekið af festu á múhameðsteikningamálinu 2006 og það geti valdið vandræðum í samskiptum NATO við múslimaríki. Auk þess hafi Danir ekkert gert til að banna starfsemi kúrdískrar sjónvarpsstöðvar í Danaveldi.




Tengdar fréttir

Næsti forsætisráðherra Danmerkur?

Ef Anders Fogh Rasmussen verður framkvæmdastjóri NATO er fastlega gert ráð fyrir að Lars Lökke Rasmussen taki við embætti forsætisráðherra Danmerkur.

Mikil öryggisgæsla á NATO fundi

Mikil öryggisgæsla er í Strassborg í Frakklandi vegna leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins sem hefst þar í dag. Ástandið í Afganistan, samskiptin við Rússa og val á nýjum framkvæmdastjóra eru helstu málin á þessum sextíu ára afmælisfundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×