Innlent

Græða upp Landeyjasand fyrir nýju höfnina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sandfok á Landeyjasandi verður svo öflugt að dæmi eru um að lakk skrapist af bílum á fáum klukkustundum. Landgræðslan vinnur nú í kappi við tímann að græða sandinn upp þannig að óhætt verði að aka þar um þegar nýja Landeyjahöfnin verður opnuð næsta sumar.

Bóndi úr Landeyjum dreifir hér kúamykju yfir Landeyjasand en Landgræðslan hefur undanfarin tvö ár, sem verktaki hjá Siglingastofnun, unnið við að græða upp stór belti á sandinum. Íslenskt melgresi er eina jurtin sem gagnast við þessar aðstæður, að mati Landgræðslunnar.

Árangurinn blasir þegar við. Hér er nú komin býsna þétt gróðurhula en til samanburðar þá leit þetta sama svæði út svona í byrjun júnímánaðar. Landgræðslumenn eru nokkuð vissir um að uppgræðslan verði komin vel á veg næsta sumar þegar ferjusiglingar eiga að hefjast um nýju höfnina. Þeir spá því svæðið muni á fáum áratugum breytast í fjölskrúðugt gróðurlendi enda hlýtt og rakt þarna við suðurströndina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×