Innlent

Rætt verður við umsækjendur

þjóðleikhúsið Rætt verður við alla umsækjendur um stöðu þjóðleikhússtjóra.fréttablaðið/valli
þjóðleikhúsið Rætt verður við alla umsækjendur um stöðu þjóðleikhússtjóra.fréttablaðið/valli

Starfsmenn menntamálaráðuneytisins munu á næstu dögum ræða við umsækjendur um stöðu þjóðleikhússtjóra. Þeim til aðstoðar verður sérfræðingur í mannauðsmálum. Að því ferli loknu mun ráðherra skipa í stöðuna.

Þjóðleikhúsráð gaf umsögn um umsækjendurna og mat þær Tinnu Gunnlaugsdóttur og Þórhildi Þorleifsdóttur hæfastar. Hinir væru þó allir hæfir.

Fjórir umsækjendur andmæltu umsögn ráðsins og þrír þeirra, Ari Matthíasson, Hlín Agnarsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson, andmæltu því sérstaklega að ekki hefði verið rætt við umsækjendur. Þá andmælti Kolbrún Halldórsdóttir umsögninni og vildi láta ógilda hana. Aðrir umsækjendur voru Hilmar Jónsson, Magnús Ragnarsson og Sigurður Kaiser.

Ráðið lagði til í sinni umsögn að ráðningartímabil leikhússtjórans yrði stytt úr fimm í fjögur ár. Þá yrði það lögfest að enginn gæti gegnt embætti lengur en tvö tímabil.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skipar í stöðu leikhússtjórans. Hún sagði, í samtali við Fréttablaðið fyrir nokkru, að þau mál yrðu tekin til skoðunar. Eðlilegt væri þó að eitt gilti yfir alla listræna stjórnendur ríkisstofnana.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×