Innlent

Hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs myndi flýta fyrir endurreisn atvinnulífsins

Frá fundinum.
Frá fundinum.

Hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs myndi virka sem blóðgjöf fyrir bygginga- og mannvirkjagerð í landinu og stuðla að því að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný. Þetta var meðal þess sem kom fram á fjölmennum fundi sem meistarafélög í bygginga- og mannvirkjagerð héldu með Óskari Bergssyni, formanni borgarráðs, og Kristjáni Erni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá meistarafélögunum. Þar segir einni að í máli framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins hafi komið fram að mikilvægt sé fyrir lífeyrissjóðina í því árferði sem við byggjum nú við að koma peningum inn í efnahagslífið.

„Sagði hann að um þessar mundir stæðu yfir viðræður við borgaryfirvöld um fjármögnunarþörf borgarinnar. Nefndi hann sem möguleika að stofnaður yrði sérstakur sjóður sem lífeyrissjóðirnir tækju þátt í og yrði notaður til að fjármagna framkvæmdir. Var samróma álit fundarmanna að slík lán yrðu notuð til nýbygginga og viðhalds en ekki í rekstur."

Þá segir að formaður borgarráðs hafi staðfest að borgaryfirvöld og lífeyrissjóðirnir ættu í viðræðum og þá ætti borgin einnig í viðræðum við Evrópska þróunarbankann um aðkomu hans að fjármögnun verkefna á vegum borgarinnar.

„Hann sagði að allir samningar borgarinnar yrðu yfirfarnir og semja þyrfti upp á nýtt um marga þeirra, þá þyrfti að forðast að taka óraunhæfum tilboðum. Hann vakti athygli á að lífeyrissjóðirnir yrðu varla inni í myndinni nema lánskjör væru viðunandi. Aðspurður sagði hann ljóst að borgin myndi bjóða út nýjar lóðir áfram, borgin þyrfti á því að halda. Þegar talið barst að fyrirhugaðri samgöngumiðstöð í höfuðborginni sagði formaður borgarráðs að viðræður væru í gangi við ríkisvaldið um staðsetningu hennar og vonaðist hann til að farsæl lausn fyndist fljótlega.

Framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins sagði að um 8% af eignum sjóðsins hefðu verið bankainnistæður um síðustu áramót og í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu væri nú verið að kanna hvort unnt væri að ná fram hagkvæmri langtímaávöxtun þess fjár með þátttöku í arðbærum framkvæmdum. Þá væri stór hluti eigna sjóðsins í í auðseljanlegum verðbréfum og auðvelt væri að breyta hluta þeirra í peninga, sem mætti nýta í t.d. fjármögnun arðbærra framkvæmda. "






Fleiri fréttir

Sjá meira


×