Íslenski boltinn

Leiðtoginn sem fékk sjö leiki

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Willum fagnar Íslandsmeistaratitili með Val.
Willum fagnar Íslandsmeistaratitili með Val.

Brotthvarf Willums Þórs Þórssonar frá Val í dag hefur að vonum vakið mikla athygli enda lítið búið af mótinu.

Valsliðið er búið að spila níu leiki í sumar og þar af sjö undir stjórn Willums en hann missti af síðustu tveim leikjum þar sem hann var á þjálfaranámskeiði í Englandi.

Vinni liðið leikinn sem það á inni er aðeins stigi á eftir KR sem er í öðru sæti. Á móti kemur að fótboltinn sem Valur hefur spilað í sumar hefur ekki beint verið til útflutnings.

Willum skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við Val í lok síðustu leiktíðar og það er áhugavert að hann sé síðan rekinn eftir að hafa aðeins stýrt liðinu í sjö leikjum í sumar.

Þegar Willum skrifaði undir nýja samninginn horfðu menn björtum augum til framtíðar.

„Hann er mikill leiðtogi og nákvæmlega sá maður sem við viljum halda í sem lengst og það er tryggt næstu fjögur árin," sagði Edvard Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, við mbl.is við það tilefni.

Bróðir hans, Ótthar, sagði við fótbolta.net af sama tilefni.

„Við erum mjög sáttir með Willum enda værum við annars ekki að gera fjögurra ára samning við hann ef það væri ekki. Við erum í skýjunum með þetta, það er hvergi hæfari mann að finna til að stýra okkar liði," sagði Ótthar Edvardsson sem er yfirmaður afrekssviðs Vals við Fótbolta.net.

Skjótt skipast veður í lofti.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×