Innlent

Óákveðið hver tekur sæti Magnúsar í bankaráði

Sigmundur Davíð og Magnús Árni.
Sigmundur Davíð og Magnús Árni. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ekki sé búið að ákveða hver taki sæti í bankaráði Seðlabankans sem fulltrúi flokksins í stað Magnúsar Árna Skúlasonar sem sagði sig úr ráðinu fyrir rúmum hálfu mánuði. Sigmundur á von á því að þingflokkurinn afgreiði málið fljótlega eftir að þingstörf hefjast. Alþingi kemur saman næstkomandi fimmtudag.

Í frétt Morgunblaðsins 12. september kom fram að Magnús Árni hafði fyrr á árinu samband við útflutningsfyrirtæki til að koma á viðskiptum með gjaldeyri í gegnum breskt miðlunarfyrirtæki. Það hefur það í för með sér að útflutningstekjur í erlendum gjaldmiðli skila sér ekki á gjaldeyrismarkað hér á landi. Seðlabankinn hafði áður beðið fyrirtækin um að láta af slíkum viðskiptum meðan gjaldeyrishöft eru í landinu.

Sjálfur sagði Magnús Árni tilganginn hafi ekki verið a höndla með krónur. Síðar sama dag sagði hann sig úr ráðinu.


Tengdar fréttir

Vann gegn markmiðum Seðlabankans

Magnús Árni Skúlason, sem situr í bankaráði Seðlabanka Íslands fyrir hönd Framsóknarflokksins, hafði samband við stóran hluthafa í stoðtækjaframleiðandanum Össuri og starfsmenn lyfjafyrirtækisins Actavis með það fyrir augum að benda þeim á heppilegan miðlara með gjaldeyri erlendis. Áður hafði Seðlabankinn beðið fyrirtækin um að láta af slíkum viðskiptum. Þetta er fullyrt í Morgunblaðinu í dag.

Magnús segi sig úr bankaráði Seðlabankans

Hallur Magnússon, einn af forystumönnum Framsóknarflokksins í Reykjavík, vill að Magnús Árni Skúlason, fulltrúi flokksins í bankaráði Seðlabankans, segi af sér. Ekki sé hægt að kenna Framsóknarflokknum um mistök Magnúsar.

Magnús hættir í bankaráði Seðlabankans

„Þar sem störf mín hafa nú opinberlega verið tortryggð með ómaklegum hætti hef ég ákveðið að fara þess á leit við Alþingi að mér verði veitt lausn frá störfum sem bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands,“ segir Magnús Árni Skúlason, fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabankans, í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum.

Engin viðbrögð frá Framsókn varðandi mál Magnúsar

Engin viðbrögð hafa borist frá forystu Framsóknarflokksins varðandi mál Magnúsar Árna Skúlasonar, fulltrúa flokksins í bankaráði Seðlabankans. Þeir þingmenn sem fréttastofa náði tali af vildu ekki tjá sig um málið.

Magnús íhugar að stefna Morgunblaðinu

Magnús Árni Skúlason, fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabankans, sem reyndi að koma íslenskum fyrirtækjum í aflandsviðskipti með gjaldeyri segir að tilgangurinn hafi ekki verið að höndla með krónur. Hann íhugar að stefna Morgunblaðinu vegna umfjöllunar um sig í dag. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×