Enski boltinn

Hamann hefur trú á Benitez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dietmar Hamann í leik með Manchester City gegn Liverpool árið 2007.
Dietmar Hamann í leik með Manchester City gegn Liverpool árið 2007. Nordic Photos / Getty Images
Dietmar Hamann, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur trú á því að það sé ótímabært að víkja Rafael Benitez úr starfi knattspyrnustjóra félagsins.

Liverpool hefur tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum og þarf nauðsynlega á sigri að halda er liðið mætir Lyon annað kvöld í Meistaradeild Evrópu.

Ronnie Whelan, fyrrum leikmaður Liverpool, var einn þeirra sem telur að dagar Benitez hjá félaginu eru taldir en því er Hamann ekki sammála.

„Það er ótímabært að kalla eftir því að Rafa verði rekinn," sagði Hamann í samtali við BBC.

„Hann hefur verið hjá félaginu í fimm ár og liðið hefur staðið sig betur á hverju ári. Rafa hefur allt það til staðar sem hann þarf til að koma liðinu á rétta braut á ný."

„Þetta er hins vegar í fyrsta sinn á þessum fimm árum sem liðinu hefur gengið þetta illa. En það eru enn 27 leikir eftir á tímabilinu. Ég hef ekki trú á því að liðið verði meistari eftir þessa slæmu byrjun en það er enn nægur tími til að koma liðinu í eitt af efstu fjórum sætunum."

Hamann bætti því við að hann telur leikinn gegn Lyon afar mikilvægan.

„Ég held að sá leikur sé mikilvægari en allir þeir deildarleikir sem liðið hefur spilað að undanförnu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×