Íslenski boltinn

KR hafnaði tilboði Vals í Guðmund

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Benediktsson í leik með Val á síðasta tímabili.
Guðmundur Benediktsson í leik með Val á síðasta tímabili. Mynd/Anton

KR hefur hafnað tilboði Vals í Guðmund Benediktsson sem síðarnefnda félagið vill fá til að þjálfa liðið sitt í Pepsi-deild karla.

Willum Þór Þórsson og knattspyrnudeild Vals komust að samkomulagi í fyrradag um að slíta „farsælu samstarfi" þeirra eins og það var orðað í tilkynningu frá Val.

„Þeir höfðu samband í fyrradag og óskuðu eftir leyfi til að fá að tala við hann," sagði Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Vísi.

„En við erum ekki á þeim buxunum að losna við hann og erum ekki að semja við þá um eitt eða neitt. Við höfðum fyrir því að fá hann í KR og viljum hafa hann áfram í KR."

Valur hafði svo aftur samband í gærkvöldi og lögðu fram tilboð. Því var umsvifalaust hafnað. „Það sem þeir lögðu fram var bara grín. Ég lít sem svo á að það sé ekki um neitt að ræða. Gummi verður áfram hjá okkur og þeir vinna áfram í sínum málum."

Hann útilokar þó ekki að KR muni hafna öðrum tilboðum Vals í Guðmund. „Við munum skoða alla hluti og ef leikmaðurinn hefur áhuga á að fara verðum við að skoða það. Það sem hingað til hefur komið fram erum við ekki tilbúnir að sætta okkur við."

„En við erum ekki heldur að bíða eftir nýju útspili frá Val."

Ekki hefur náðst í Guðmund sjálfan þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Kristinn segist hafa rætt við Guðmund um hvað hann vilji gera. „Ég leyfi honum sjálfum að svara þeirri spurningu."

Eins og áður hefur komið fram hefur Vísir heimildir fyrir því að Valsmenn hafi rætt við Guðmund á undanförnum dögum. Það hefur ekki breyst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×