Innlent

Óhugsandi að Samfylkingin slíti ríkisstjórnarsamstarfinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Mynd/GVA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Mynd/GVA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist alls ekki vera þeirrar skoðunar að ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og VG standi og falli með Icesave málinu.

„Í fyrsta lagi finnst mér nú skrýtið ef ríkisstjórnarsamstarfið á að snúast um þetta mál umfram annað. Hvað segir það um þingið og stöðu þess ef þingmenn eiga ekki neinn annan kost en að kjósa eins og framkvæmdavaldið ætlast til? Og framkvæmdavaldið lítur svo á að ef þingmenn geri það ekki þá sé ríkisstjórnin bara fallin?" spyr Sigmundur Davíð. Að auki segist Sigmundur Davíð telja að það sé óhugsandi að Samfylkingin slíti ríkisstjórnarsamstarfinu á meðan að Evrópusambandsmálið er í vinnslu.

Sigmundur Davíð segir að Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra eigi heiður skilinn fyrir að vilja ná niðurstöðu í málinu sem allir þingmenn geti greitt atkvæði með. Það sé griðarlega mikilvægt í svona stóru og erfiðu máli sem sé tengt samskiptum við útlönd. „Þess vegna finnst mér það vera alveg gífurleg vonbrigði hvernig Samfylkingin, og það sem ég vil meina að sé spunadeildin þar, bregst við þessu. Í stað þess að vinna að þessu með því að mynda breiða samstöðu þá koma þeir með einhverja gervifyrirvara, sem að allir sáu nú strax í gegnum, og síðan er ráðist á Ögmund og honum nánast hótað því beint að hann sé að eyðileggja ríkisstjórnina ef hann ætlar sér að halda áfram á þessari braut," segir Sigmundur Davíð í samtali við Vísi.

Sjálfur er Sigmundur Davíð harður andstæðingur Icesave samningsins „Fáránleiki þess að halda því fram að styrkja megi gengið með stórkostlegri erlendri skuldsetningu má vera flestum ljós. Það ætti ekki að þurfa Hagfræðistofnun Háskólans til að benda á það," segir Sigmundur Davíð á bloggsíðu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×