Innlent

Greiðslur Landsvirkjunar til sveitarstjórnarmanna út úr kortinu

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
„Þetta lyktar ekki vel," segir formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands um greiðslur Landsvirkjunar til sveitarstjórnarmanna sem greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2. „Mér finnst þetta vera út úr kortinu," segir formaðurinn.

Landsvirkjun greiddi fyrir fundarsetu sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, um fyrirhugaðar virkjanir í hreppnum. Hver sveitarstjórnarmaður fékk 200 þúsund krónur, segir Sigurður Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri. Gunnar Örn Marteinsson, oddviti hreppsins staðfestir að hafa fengið greiðslur frá Landsvirkjun í gegnum hreppinn.

„Landsvirkjun hefur lagt mjög mikið á sig í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til að kaupa menn til fylgilags við sig," segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Árni segir að samkvæmt gömlum lögum hafi oddvitar sveitarfélaga fengið sérstaklega greitt frá Landsvirkjun ef að virkjun hafi verið í aðsigi í viðkomandi sveitarfélagi. Þannig hafi oddviti Fljótsdalshrepps þegið laun í tengslum við framkvæmdirnar á Austurlandi. „Þetta var réttlætt með því að oddvitinn hefði svo mikið að gera við skiplagningu virkjana að Landsvirkjun bæri að borga launin. Þannig að þetta er ekki nýtt."

Árni bendir á að ríkið hafi í dag sett sér eigendastefnu í fjármálafyrirtækjum. „Sú stefna hlýtur að verða tekin upp í öðrum stofnunum og fyrirtækjum ríkisins, en stefnan kemur í veg fyrir svona greiðslur."

Þá bindur Árni vonir við Hörð Arnarson sem tekur við sem forstjóri Landsvirkjunar um áramótin. Stefna Landsvirkjunar og vinnubrögð fyrirtækisins hljóti að breytast í kjölfarið.


Tengdar fréttir

Landsvirkjun greiddi sveitarstjórnarmönnum fyrir skipulagsvinnu

Landsvirkjun greiddi fyrir fundarsetu sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, um fyrirhugaðar virkjanir í hreppnum. Hver sveitarstjórnarmaður fékk 200 þúsund krónur, segir fyrrverandi sveitarstjóri. Oddviti hreppsins staðfestir að hafa fengið greiðslur frá Landsvirkjun, í gegnum hreppinn, en er ósáttur við að vera sakaður um mútuþægni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×