Innlent

Landspítalinn sker niður um 2,8 milljarða á þessu ári

Höskuldur Kári Schram skrifar
Landspítalinn við Hringbraut. Mynd/ Hari.
Landspítalinn við Hringbraut. Mynd/ Hari.
Landspítalinn þarf að skera niður um 2,8 milljarða króna á þessu ári. Stjórnendur Spítalans funduðu með starfsmönnum í morgun til að kynna væntanlegar niðurskurðaraðgerðir. Framkvæmdastjóri Lækninga á Landspítalanum á ekki von á því að þjónusta muni skerðast á þessu ári.

Fram kemur í fréttablaðinu í dag að Landspítalinn Háskólasjúkrahús þarf að skera niður um 2,8 milljarða króna á þessu ári. Frekari niðurskurður er einnig boðaður á næstu árum. Spítalinn var þegar búinn að skera niður um 70 prósent af þessari upphæð en veiking krónunnar á þessu ári þýðir að spítalinn þarf að skera enn meira niður.

Stjórnendur Landspítalans funduðu með starfsmönnum í morgun en boðað hefur verið til blaðamannfundar klukkan eitt í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu er uppsagnir ekki útilokaðar.

Björn Zoega, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að verkefni væri risavaxið og að það kalli á endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins hér á landi.

Hann segist ekki eiga von á því að þjónusta muni skerðast á þessu ári en vildi ekki tjá sig um það hvað gæti gerst á næsta ári.

Í Fréttablaðinu er haft eftir Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítalans, að þörf væri á hörðum aðgerðum til að ná fram sparnaðinum.

Nánar verður fjallað um þetta mál í kvöldfréttum Stöðvar 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×