Innlent

Hannyrðafólk bíður spennt eftir nýjum prjónamynstrum

Húsvíkingar eru alvanir prjónaskap. Í desember ár hvert heldur Slysavarnadeild kvenna á Húsavík slík kvöld þar sem ýmislegt verður til úr garninu.
Húsvíkingar eru alvanir prjónaskap. Í desember ár hvert heldur Slysavarnadeild kvenna á Húsavík slík kvöld þar sem ýmislegt verður til úr garninu.

„Við ætlum að prjóna saman barnavettlinga og gefa þá í söfnun Mæðrastyrksnefndar,“ segir Gerður Eðvarðsdóttir, sem á og rekur hannyrða- og kaffihúsið Heitt á prjónunum á Ísafirði. Hún reiknar með um fimmtán manns, allt frá átta ára til áttræðs, í prjónakaffi sem haldið verður í hannyrðaversluninni í dag í tilefni af útgáfu nýja prjónablaðsins Björk.

Þetta er fyrsta tölublað prjónablaðsins sem bætist í litríka flóru prjónablaða á markaðnum. Þau verða nú að minnsta kosti fjögur og tengjast sum þeirra ákveðnum gerðum af garni, jafnt íslensku sem innlendu. Í nýja blaðinu er lögð áhersla á íslensk munstur og viðtöl við prjónakonur og ýmislegt fleira sem tengist prjónaskap.

Útgáfunni er fagnað í að minnsta ellefu hannyrðaverslunum víða um land á milli klukkan fjögur og sex í dag og fitjað verður upp og prjónað í nokkrum þeirra. Vinsældir prjónaskapar hafa vaxið jafnt og þétt síðustu misseri og sér ekki fyrir enda á því.

Prjónakaffi hefur verið haldið öll mánudagskvöld í hannyrðaversluninni Heitt á prjónunum síðan búðin opnaði í júní. Kökurnar og kruðeríið í kaffihúsinu bakar Gerður sjálf.

„Það er alltaf mikil eftirvæning eftir nýju prjónablaði. Ég verð bara að treysta á að vera komin með það í hendur,“ segir Sigrún Ingvarsdóttir í hannyrðaversluninni Esar á Húsavík þegar Fréttablaðið ræddi við hana í gær. Hún reiknar með mikilli aðsókn í tilefni af útkomu tímaritsins, sem verður fagnað fyrir norðan á milli klukkan fjögur og sex í dag.

Sigrún segir Húsvíkinga alvana prjónakaffi sem þessu enda sé Slysavarnadeild kvenna á Húsavík með árlegt prjónakaffi. Það næsta verður haldið 9. desember næstkomandi. Af þeim sökum telur hún ólíklegt að prjónarnir verði teknir upp í dag. Boðið verður upp á kaffi og með því og rætt um prjónaskap auk þess að von er á einhverjum uppákomum. „Við erum alltaf spennt fyrir nýjum munstrum,“ segir hún.

jonab@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×