Innlent

Fjallvegir ófærir en Arnkötludalur hafður lokaður

Þorskafjarðar-, Tröllatungu- og Steinadalsheiði eru nú allar ófærar vegna snjóa, sem og Hrafnseyrarheiði, og neyðast vegfarendur á leið milli Ísafjarðar og Reykjavíkur því til að aka um Hrútafjörð, sem er yfir 40 kílómetrum lengri leið.

Nýja veginum um Arnkötludal er ætlað leysa þrjá fyrstnefndu fjallvegina af hólmi en Vegagerðin sá ástæðu til þess í gær að tilkynna sérstaklega að Arnkötludalsvegur væri lokaður, en ökumenn voru byrjaðir að aka veginn framhjá skiltum sem sögðu hann lokaðan. Verktakinn lauk í fyrradag við að leggja bundið slitlag á veginn og reyndi ekki að stöðva ökumenn á leið þar um.

Vegagerðin vill fyrst fá að setja upp vegstikur og merkingar og segir Geir Sigurðsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, að kraftur verði settur í það verk eftir helgi. Segir hann stefnt að því að opna Arnkötludal sem allra fyrst, - ekki verði beðið eftir vígsluathöfn ráðherra, - og vonast til að unnt verði að hleypa umferð á veginn upp úr miðri næstu viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×