Innlent

Innlend orka á bílaflotann gæti sparað milljarð

Tesla Roadster er dæmi um háþróaðan rafmagnsbíl.
Tesla Roadster er dæmi um háþróaðan rafmagnsbíl.

Íslendingar gætu sparað rúmlega einn milljarð króna í gjaldeyri í hverjum mánuði með því að hætta að nota olíu og bensín á bílaflotann og skipta yfir í innlenda orkugjafa svo sem rafmagn og metan. Þetta er fullyrt í tilkynningu frá Framtíðarorku en næstkomandi mánudag mun hópur alþjóðlegra sérfræðinga funda í Reykjavík á mánudag til að fjalla um hvernig framkvæma megi slíka kerfisbreytingu.

„Ísland þykir mjög spennandi vettvangur fyrir slíkar lausnir vegna þeirrar sérstöðu að landið hefur þegar farið í gegnum kerfisbreytingu í orkumálum þegar skipt var úr kolum og olíu í jarðvarma til húshitunar. Í þessu samhengi má spyrja hvar þjóðin væri stödd ef við notuðum enn innflutta olíu og kol til húshitunar?," segir ennfremur í tilkynningunni.

Að mati Framtíðarorku er Ísland án innfluttrar orku á bílana raunhæft takmark á næstu tíu til tuttugu árum. „Metanbílar eru til í mörgum útgáfum í dag, þeir eru um tuttugu prósent ódýrari í innkaupum en sambærilegir bensín og díselbílar og eldsneytiskostnaður þeirra er allt að helmingi minni. Á ruslahaugum í Álfsnesi framleiðir Metan hf metangas sem nægir til að knýja um það bil fjögur þúsund bíla árlega og miklir möguleikar eru á að auka framleiðsluna víða um land. Aðeins rúmlega eitthundrað slíkir bílar eru á götunum."

Fjöldi gesta á ráðstefnunni

Fimmtán sérfræðingar frá stærstu og athyglisverðustu bílaframleiðendum heims, framsæknustu orkufyrirtækjum og rafhlöðuframleiðendum veraldar, háskólum og nágrannaborgum og löndum mynda kraftmikinn hóp ræðumanna sem hittist á Driving Sustainability ráðstefnunni sem Framtíðarorka stendur nú fyrir þriðja árið í röð. Þeir munu veita innsýn í stefnumótun og hagkvæmustu tæknilausnirnar í grænum samgöngum sem eru í boði í dag og verða það á allra næstu árum. Nú þegar eru skráðir um 150 þátttakendur frá 25 löndum þar á meðal öllum Norðurlöndum, fjölmörgum Evrópulöndum, Bandaríkjunum, Japan, Kína og víðar.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands setur ráðstefnuna en henni lýkur á þriðjudag eftir viku. Gestgjafar ráðstefnunnar eru Norræna Ráðherranefndin og Reykjavíkurborg. Bakhjarlar hennar eru Mitsubishi í Japan, N1, Orkuveita Reykjavíkur, Metan, Orkustofnun, Toyota, Sænska Sendiráðið á Íslandi, Iðnaðarráðuneytið, Utanríkisráðuneytið og Umhverfisráðuneytið auk Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×