Innlent

Lofsöng Landsbankann og Icesave rúmu hálfu ári fyrir hrun

Helga Arnardóttir. skrifar

Davíð Oddsson er tvísaga um viðvaranir sínar um erlenda innstæðureikninga íslensku bankanna. Í Morgunblaðinu í dag segist hann ítrekað hafa sagt bankastjórum Landsbankans í fyrra að þeir gætu ekki endalaust safnað peningum erlendis með ríkisábyrgð. Í viðtali við breskan fréttamann á sama tíma lofsöng hann hins vegar Landsbankann og sparnaðarreikningana.

Í Morgunblaðinu í dag segir Davíð að Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason bankastjórar Landsbankans hafi fundað með honum í Seðlabankanum snemma árs í fyrra þar sem þeir hafi reifað þau sjónarmið Landsbankans að ríkið bæri ábyrgð á Icesave skuldbindingunum bankans.

Davíð segist hafa svarað því til að þeir gætu út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn en þeir hefðu ekkert leyfi til að setja íslensku þjóðina á hausinn. Á þessum fundi hafi afstaða Seðlabankans verið ítrekuð að Landsbankinn gæti ekki safnað peningum endalaust erlendis og við þá söfnun skapaðist sjálfkrafa ríkisábyrgð á Íslandi.

En ekki virtist Davíð vera á sömu skoðun þegar hann ræddi við fréttamanninn Faisal Islam á bresku sjónvarpsstöðinni Channel four í febrúar í fyrra. Fréttamaðurinn skrifaði svo grein um ástandið sem birtist í tímaritinu Monocle í febrúar síðastliðnum eða nákvæmlega ári síðar og birti viðtal við Davíð um Icesave og Kaupthing Edge.

Þar segir hann:

innstæður eru öruggar aðallega í Landsbankanum. Landsbankinn var stofnaður fyrir 120 árum. Hann er virtur og gengur vel hér á landi og annars staðar. Ég myndi ekki segja annað en að það væri góð ákvörðun að nýta sér þá möguleika að leggja sparifé sitt inn í Landsbankann.

Í greininni segir að Davíð hafi þótt farsælla að afla fjár hjá venjulegum innstæðueigendum frekar en á markaði og segir:

Ég held að íslenski bankar hafi áttað sig á því fyrir tveimur árum að þeir ættu að fara þá leið frekar en að endurfjármagna sig á markaði. Það var eðlilegra að gera slíkt með innlánum og það hefur gengið vel. Ég held að við ættum að hrósa þeim fyrir það en ekki refsa þeim.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×