Erlent

Segir handritshöfundum hafa farið aftur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
John Milius.
John Milius. MYND/CNN/Ty Ponder

Höfundur margra þekktustu setninga kvikmyndanna segir handritshöfundum hafa farið mjög aftur.

Hver man ekki eftir því þegar Robert Duvall lýsir því á allt að því ljóðrænan hátt í kvikmyndinni Apocalypse Now, sem byggð var á skáldsögunni Heart of Darkness eftir Joseph Conrad, hve ilmurinn af napalmi sé dásamlegur í morgunsárið? Það lykti eins og sigurinn.

Margir muna líka eftir fjálglegri lýsingu Dirty Harry, sem Clint Eastwood gerði ódauðlegan, á afli Magnum 44-skammbyssunnar. Báðar setningarnar, og miklu fleiri sem orðið hafa fleygar í hinum og þessum kvikmyndum, samdi John Milius, handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri fjölda kvikmynda og aðstoðarhandritshöfundur enn fleiri.

Skáldmælgin er Milius í blóð borin og honum virðist einkar lagið að skapa ógleymanlegar setningar. Í viðtali við CNN segir Milius að því miður hafi handritshöfundum nútímans farið stórkostlega aftur. Hollywood-handrit dagsins í dag hafi glatað ljóðrænunni sem áður einkenndi þau og viðurkennir hann að hann sakni þessara einkenna góðra kvikmyndahandrita. Hann segir að höfundar nútímans þurfi einfaldlega að fara aftur til upprunans og leita í gamla skáldskapinn til að ná dýptinni á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×