Íslenski boltinn

Landsleikur gegn Suður-Afríku í október

Elvar Geir Magnússon skrifar
Frá landsleik gegn Makedóníu.
Frá landsleik gegn Makedóníu.

Frágengið er að íslenska landsliðið muni leika vináttulandsleik við Suður-Afríku á Laugardalsvelli þann 13. október. Frá þessu er greint á vefsíðu KSÍ.

Karlalandsliðið leikur því þrjá vináttulandsleiki á Laugardalsvelli frá 12. ágúst til 13. október auk þess sem það leikur lokaleik sinn í undankeppni HM 2010 við Norðmenn, laugardaginn 5. september.

Slóvakar verða mótherjarnir miðvikudaginn 12. ágúst og miðvikudaginn 9. september koma Georgíumenn hér til lands.

Ísland og Suður-Afríka hafa tvisvar áður mæst hjá A landsliðum karla. Árið 1998 gerðu þjóðirnar jafntefli 1-1 en þá var leikið í Þýskalandi. Árið 2005 léku svo þjóðirnar hér á Laugardalsvelli og sigruðu þá Íslendingar, 4-1.

Suður-Afríkumenn undirbúa sig nú af miklum móð undir úrslitakeppni HM 2010 en þar verða þeir, sem kunnugt er, í hlutverki gestgjafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×