Enski boltinn

Ferguson ósáttur við dómarann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson eftir leikinn í dag.
Alex Ferguson eftir leikinn í dag. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var ekki ánægður með dómgæsluna í leik sinna manna gegn Chelsea í dag.

Ferguson hefur aldrei verið feiminn við að segja skoðun sína á frammistöðu knattspyrnudómara og það var hann ekki heldur í dag.

Hann var bæði ósáttur við aukaspyrnuna sem var dæmd á Darren Fletcher en mark Chelsea kom þegar að John Terry skallaði fyrirgjöf Frank Lampard úr aukaspyrnunni í netið. Ferguson sagði einnig að markið hefði ekki verið löglegt.

„Það var augljóst að Darren vann boltann. Hann kom aldrei við Ashley Cole. Svo gerðist Didier Drogba brotlegur þegar hann togaði niður Wes Brown þegar þeir skoruðu," sagði Ferguson.

„Þetta var slæm ákvörðun en það svo sem ekkert hægt að gera í þessu. Maður missir stundum trúna á dómurunum og það er það sem leikmenn hafa verið að ræða um."

Hann sagði þó að það væri fyrst og fremst sínum mönnum að kenna hvernig leikurinn fór.

„Markið hefði aldrei átt að fá að standa. En við stjórnuðum leiknum og fengum góð færi til að klára leikinn. Það var okkur að kenna að við gerðum það ekki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×