Sturla Jónsson, vörubílstjóri og einn þekktasti mótmælandi síðustu missera á Íslandi hefur ákveðið að flýja land. Hann heldur til Noregs eftir helgi, kominn með nóg að eigin sögn og segir ekkert framundan á Íslandi.
„Ég fer eftir helgi, en fjölskyldan verður eftir hér heima á meðan ég safna í sjóð til þess að koma þeim út," segir Sturla sem ætlar að keyra flutningabíl í Noregi. Hann segir launin allt önnur og miklu betri í Noregi og segist fá um hálfa milljón króna fyrir fjörutíu tíma vinnuviku í laun. Hann segir að eiginkona sín sé einnig að reyna að fá atvinnuleyfi í Bandaríkjunum þannig að enn sé óljóst hvar fjölskyldan mun að lokum setjast að.
Sturla segist fullviss um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekkert gott í hyggju hér á landi. Verið sé að arðræna landið og bendir hann á líkindin með ástandinu hér í dag og í Argentínu á sínum tíma, en eftir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar í landi fór landið að endingu á hausinn.
Hann hefur því fengið nóg. „Meðan fólkið stendur ekki upp og mótmælir þessu er ekkert hægt að gera. Ég er búinn að standa í þessu síðan í mars á síðasta ári og það gerist ekkert af viti," segir Sturla og bætir við: „Ég er búinn að gefast upp."