Erlent

Humarinn Georg slapp naumlega við að verða étinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Humarinn Georg virðist hinn geðþekkasti.
Humarinn Georg virðist hinn geðþekkasti. MYND/Reuters

Dýraverndunarsamtök björguðu hundrað og fjörutíu ára gömlum risahumri naumlega frá því að enda ævina á matardiski.

Risahumarinn Georg vegur hvorki meira né minna en 10 kíló og þætti mörgum freistandi að draga þá ályktun að dýrið væri á sterum. Georg myndi þó standast öll lyfjapróf með prýði. Hann hefur hins vegar haft nægan tíma til að stækka en samtökin PETA, People for the Ethical Treatment of Animals, áætla aldur Georgs ein 140 ár.

Upp á síðkastið hefur Georg gegnt hlutverki eins konar lukkudýrs sjávarréttaveitingahússins City Crab and Seafood á Manhattan í New York en þar hafðist hann við í stóru fiskabúri ásamt ýmsum verðandi sælkeraréttum.

Tveir viðskiptavinir veitingahússins komu auga á hina öldnu hetju hafsins og gerðu PETA-samtökunum viðvart og segir eigandi veitingahússins það hafa verið auðsótt mál að gefa dýrinu frelsi í stað þess að skella því á pönnuna. Hann lét þess einnig getið að þau tólf ár sem hann hefði rekið staðinn hefði svo stór humar aldrei rekið á fjörur hans.

Dýraverndunarsamtökin fluttu Georg til Maine á laugardaginn þaðan sem hann hvarf á ný til náttúrulegra heimkynna sinna í ægis greipum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×