Innlent

Íslandsstofu ætlað að efla ímynd og orðspor Íslands

Jökulsárlón. Mynd/Pjetur
Jökulsárlón. Mynd/Pjetur

Markmið nýrrar stofnunnar, Íslandstofu, sem sett verður á laggirnar á grunni Útflutningsráðs Íslands er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins. Stjórnarfrumvarpi um hina nýju stofnun var dreift á Alþingi í dag.

Verkefni Íslandsstofu verða meðal annars að setja ramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands og að sinna markaðs- og kynningarmálum sem heyra undir Ferðamálastofu.

Í umsögn frumvarpsins segir að ákveðið hafi verið að skrifstofum Ferðamálastofu í Frankfurt og Kaupmannahöfn verði lokað á þessu ári og að þeir fjármunir sem við það sparist verði nýttir í kynningar- og markaðsverkefni sem stýrt verði frá Íslandi. Auk þess muni sendiráð Íslands taka að sér hlutverk markaðsskrifstofa ferðamála í viðkomandi ríkjum.

„Í heild er áætlað að verkefni Íslandsstofu muni aukast miðað við núverandi umsvif. Stjórn Íslandsstofu mun skipuleggja og ákveða verkefni stofnunarinnar,“ segir í umsögninni.

Stjórn Íslandsstofu verður skipuð níu manns en utanríkisráðherra skipar fimm eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn stjórnarmann eftir tilnefningu forsætisráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu menntamálaráðherra og einn stjórnarmann án tilnefningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×