Innlent

Pólitíkusum boðið á stefnumót með ungu fólki

Mynd/GVA
„Við erum að bjóða upp á vettvang þar sem stjórnmálamenn og ungt fólk ræðir saman um málefni sem snerta fyrst og fremst ungt fólk," segir Sindri Snær Einarsson, varaformaður Landssambands æskulýðsfélaga. Í dag fer fram á vegum sambandsins og Æskulýðs vettvangsins svokallað stefnumót ungs fólks og stjórnmálmanna. Þrír ráðherrar og tveir þingmenn hafa boðað komu sína.

Sindri segir að niðurstöður erlendra rannsókna sýna að þegar efnahagsþrengingar gangi yfir sé aldurshópurinn 16 til 25 ára í hvað mestri hættu. „Ef ekkert er að gert til að tryggja þátttöku þessa aldurshóps í samfélaginu er hætta á að þessi kynslóð týnist í framtíðinni. Einnig er hætt við að langvarandi atvinnuleysi og geðræn vandamál fari vaxandi meðal þessa hóps."

Í því ljósi telur Sindri mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða og setji málefni ungs fólks í forgang svo að koma megi í veg fyrir alvarlegar afleiðingar. „Við einblínum á að halda ungu fólki virku," segir Sindri.

Á stefnumótinu gefst ungu fólki tækifæri á að koma skoðunum og málefnum sínum á framfæri við stjórnmálamenn sem fá auk þess tækifæri til að tjá sig um málefni ungs fólks. Sindri segir að nú þegar hafi Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, og Kristján Möller, samgönguráðherra, boðað komu sína sem og Samfylkingarþingmennirnir Jónína Rós Guðmundsdóttir og Anna Pála Sverrisdóttir. Auk þess muni þeir Þórólfur Þórlindsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Hreiðar Már Árnason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema, halda stutt erindi.

Til stefnumótsins er æskulýðsfélögum, Æskulýðsráði, ráðherrum, þingmönnum og öllu ungu fólki boðið, sem og öllum áhugasömum um málefni ungs fólks. Stefnumótið fer fram í Gyllta sal Hótel Borgar og hefst klukkan 16 og stendur til klukkan 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×