Innlent

Allir tala um verðtrygginguna

Jón Magnússon er öflugur talsmaður afnáms verðtryggingar.
Jón Magnússon er öflugur talsmaður afnáms verðtryggingar.

 Fjallað er um afnám verðtryggingar í ályktunum landsfunda allra flokkanna fimm sem nú eiga fulltrúa á Alþingi.  Misjafnt er þó hversu fast menn stíga til jarðar í þeim efnum.

Í stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar um helgina er fjallað um afnám verðtryggingar í tengslum við aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. „…auk þess sem verðtrygging leggst af með upptöku nýs gjaldmiðils,“ segir í ályktuninni.

Í hliðstæðri ályktun sjálfstæðismanna segir að stefna skuli að því að í boði verði óverðtryggð lán og möguleiki á að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð þegar verðbólga og vextir eru komin í viðunandi horf.

Afnám verðtryggingar hefur lengi verið eitt af helstu stefnumálum

Frjálslynda flokksins. Í málefnahandbók hans segir einfaldlega: „afnemum verðtryggingu af lánum.“

Í ályktun framsóknarmanna um stjórnmála- og efnahagsástandið frá í janúar segir að til lengri tíma sé nauðsynlegt fyrir alla hagstjórn að hlutfall verðtryggðra skuldbindinga minnki og að framtíðar-fyrirkomulag gjaldmiðilsmála leiki þar lykilhlutverk.

VG segir í sínum áherslum frá landsfundi að í framhaldi vaxtalækkana þurfi að afnema verðtryggingu í áföngum, til að mynda, með því að bjóða upp á óverðtryggð íbúðalán og lengja í lánstíma verðtryggðra lána.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×