Innlent

Færeyingar þurfa líka að ákveða sig

Frá Færeyjum Færeyingar fylgjast nánar með ESB-aðildarumsókn Íslendinga en margar aðrar þjóðir.
fréttablaðið/gva
Frá Færeyjum Færeyingar fylgjast nánar með ESB-aðildarumsókn Íslendinga en margar aðrar þjóðir. fréttablaðið/gva

Fari Íslendingar inn í ESB líður ekki á löngu þar til við Færeyingar þurfum að gera upp hug okkar. Spurningin vaknar strax: hvað gerum við? Þetta mál er svo stórt að við eigum ekki að leyfa að það verði að pólitísku leikfangi. Við eigum að gera þetta upp við okkur sjálf.

Svo segir í pistli frá Reiðarafélagi Færeyja, sem er félag skipseigenda; útgerðarmanna.

Margir Færeyingar hafi ekki gert upp við sig hvort þeir styðji eða hafni aðild að ESB, enda hafi þeir ekki kannað kosti þess og galla.

Félagið hafi skoðað áhrifin á sjávarútveginn. Styrkir til sjávarútvegs freisti margra, enda komi ESB-styrkirnir illa við samkeppnisfærni Færeyinga.

Á hinn bóginn mæli margt í móti. Nýlegt dæmi sé af ágreiningi um veiðarfæri, þar sem Frakkar hafi valtað yfir Íra, en Írar höfðu mótmælt ákveðnum lagabreytingum, með vísan til þess að þær þýddu að meira yrði veitt af smáfiski.

„Þetta er umhugsunarvert. Hvað gera Íslendingar þegar þeir komast í sömu aðstæður og Írar?" er spurt í pistlinum.

Leiddar hafi verið líkur að því að hvorki Íslendingar né Færeyingar fái sérsamninga. Ákvörðunarvaldið verði í Brussel.

Færeyingar þurfi að skoða hvað þeir vilji gera í þessum málum, því fyrr, því betra.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×