Enski boltinn

Redknapp: Of mikil drykkja í enska boltanum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Harry Redknapp.
Harry Redknapp. Nordic Photos/Getty Images

Harry Redknapp, stjóri Spurs, var ekki par hrifinn af uppákomu helgarinnar þegar fyrirliði liðsins, Ledley King, var handtekinn vegna slagsmála fyrir utan bar þar sem hann var að skemmta sér.

Redknapp ætlar að bregðast hart við vegna málsins enda segir hann leikmenn í enska boltanum drekka allt of mikið.

„Ég mun meina leikmönnum mínum að drekka áfengi næsta vetur. Knattspyrnumenn eiga ekki að drekka. Það á ekki að setja diesel-olíu í Ferrari. Ég veit að það verður erfitt fyrir þá en þetta eru hálaunaðir menn og fyrirmyndir," sagði Redknapp sem verður eflaust kallaður Redknapp hinn grimmi ef hann lætur verða af þessu.

„Við værum lausir við ansi mörg vandamál ef knattspyrnumenn drykkju ekki. Það er enn of mikil drykkja í enska boltanum en ástandið er samt ekki eins slæmt og það var. Við þurfum að setja gott fordæmi en er of mikið drukkið í þessu landi. Of mikið af fólki er ekki ánægt fyrr en það er búið að fá sér í glas," sagði stórtemplarinn Redknapp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×