Innlent

Öllum sagt upp í Alþjóðahúsi

Í Alþjóðahúsi er rekin ýmis þjónusta fyrir útlendinga, og upp á síðkastið hefur þeim verið veitt mikil aðstoð við að flytja úr landi frá eignum og skuldum.Fréttablaðið/arnþór
Í Alþjóðahúsi er rekin ýmis þjónusta fyrir útlendinga, og upp á síðkastið hefur þeim verið veitt mikil aðstoð við að flytja úr landi frá eignum og skuldum.Fréttablaðið/arnþór

Öllum starfsmönnum Alþjóðahúss, fjórtán talsins, hefur verið sagt upp störfum frá og með áramótum. Ástæðan er tafir á afgreiðslu þjónustusamnings Reykjavíkurborgar við Alþjóðahúsið fyrir næsta ár. Fulltrúar Alþjóðahúss og Reykjavíkurborgar benda hvor á annan þegar spurt er um ástæður tafanna.

Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri borgarinnar, en mannréttindaráðið sér um samningsgerðina, sagði í fréttum RÚV í gær að ástæðan væri sú að Alþjóðahús ætti eftir að skila ársreikningum.

Katla Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Alþjóðahúss, segir hins vegar að öllum reikningum sem máli skipta hafi verið skilað í vor. Nú sé hins vegar verið að kalla eftir ársreikningi sjálfseignarstofnunarinnar sem á Alþjóðahús, en kemur ekki nálægt rekstrinum. Það sé smámunasemi þótt í samningum segi að honum skuli skilað.

Katla gagnrýnir jafnframt að framlag borgarinnar þetta árið, sem hefur verið þrjátíu milljónir á ári, hafi án samráðs við Alþjóðahús verið lækkað í tuttugu milljónir, og það á miðju starfsári þegar áætlanir höfðu gert ráð fyrir meira fé. Enn fremur hafi fimm milljónir af þessum tuttugu átt að berast í gær, en það ekki gengið eftir vegna áðurnefndrar deilu.

Störf þessara fjórtán starfsmanna og um 300 verktaka þar til viðbótar eru nú í uppnámi þar til greitt verður úr deilunni. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×