Enski boltinn

United að landa samningum við Serbana tvo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zoran Tosic, til hægri, í leik með serbneska landsliðinu.
Zoran Tosic, til hægri, í leik með serbneska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Manchester United er sagt vera á góðri leið með að ganga frá samningum við Serbana Zoran Tosic og Adem Ljajic nú í mánuðinum.

United gekk frá samkomulagi um kaupverð við Partizan Belgrad nú í haust en í síðasta mánuði var greint frá því að Tosic hafi hafnað samningstilboði United.

Margir enskir fjölmiðlar greindu þá frá því að bæði Manchester City og Arsenal hafi þá sýnt Serbunum ungu áhuga. Hins vegar mun Alex Ferguson haft síðasta orðið í þeirri umræðu og United er sagt hafa ákveðið að ganga að launakröfum Serbanna, eftir því sem fram kemur í The Times í morgun.

United mun greiða allt að sautján milljónir evra fyrir Serbana, sem báðir eru miðjumenn, en það fer eftir því hversu marga leiki þeir spila með félaginu í framtíðinni.

Tosic er 21 árs gamall og er talið líklegt að hann muni ganga til liðs við United strax í þessum mánuði. Ljajic er sautján ára og verður líklega hjá Partisan til loka tímabilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×