Erlent

Lifði af tvær kjarnorkuárásir

Óli Tynes skrifar
Kjarnorkusprenging.
Kjarnorkusprenging.
Tsutomu Yamaguchi var á viðskiptaferðalagi í Hiroshima þann sjötta ágúst árið 1945 þegar Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á borgina.

Yamaguchi brenndist illa á efri hluta líkamans og var um nóttina í Hiroshima. Daginn eftir ákvað hann að snúa aftur heim til sín. Til Nagasaki.

Þangað var hann kominn þrem dögum síðar þegar Bandaríkjamenn vörpuðu seinni kjarnorkusprengju sinni.

Yfirvöld í Japan haf nú staðfest opinberlega að Yamaguchi hafi lifað af báðar kjarnorkuárásirnar og er hann fyrsti þegn landsins sem hlýtur slíka staðfestingu.

Þeir sem lifðu af kjarnorkuárásirnar fá opinberan stuðning svo sem mánaðarlega peningagreiðslu og ókeypis lækniseftirlit og útfararkostnað.

Japan er eina land í heiminum sem hefur orðið fyrir kjarnorkuárásum. Um 140 þúsund manns fórust í Hiroshima og um 70 þúsund í Nagasaki.

Þeir sem lifðu af árásirnar veiktust margir vegna geislunar sem þeir urðu fyrir.

Það er náttúrlega ótrúleg óheppni að lenda í tveim kjarnorkuárásum. En það verður líka að teljast nokkur heppni að lifa þær báðar af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×