Innlent

Borgin hagræðir með bakstri og hafragraut

Hanna Birna og sigrún elsa Hanna Birna Kristjánsdóttir segir að litið hafi verið til allra þátta til að ná fram hagræðingu hjá borginni; allt frá hafragraut til viðhaldsframkvæmda. Sigrún Elsa Smáradóttir er ekki sátt.
Hanna Birna og sigrún elsa Hanna Birna Kristjánsdóttir segir að litið hafi verið til allra þátta til að ná fram hagræðingu hjá borginni; allt frá hafragraut til viðhaldsframkvæmda. Sigrún Elsa Smáradóttir er ekki sátt.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir borginni takast að hagræða um 2,3 milljarða á þessu ári án þess að skerða grunnþjónustu, fækka starfsfólki eða hækka gjaldskrár. Samkvæmt tillögum um endurskoðun fjárhagsáætlunar, sem lögð var fram á borgarráðsfundi í gær, verða sparnaðartillögur borgarstarfsmanna nýttar til að ná fram um helming þessarar hagræðingar. Meðal tillagna sem um ræðir er að nota handklæði í leikskólum í stað pappírsþurrkna og bjóða oftar upp á hafragraut í stað morgunkorns svo dæmi séu tekin. Einnig verður gerð breyting á svokallaðri viðbótarstund barna í 2. til 4. bekk en hún er áður en eiginleg kennsla hefst á morgnana. Sú breyting hefur enn ekki verið útfærð nákvæmlega.

Ákveðið var við fjárhagsáætlun í janúar að fara í viðbótarhagræðingu sem næmi 2,3 milljörðum. 1,3 milljarða hagræðingu á að ná fram með því að minnka yfirvinnu eins og þegar hefur verið kynnt. Gert var grein fyrir milljarðinum sem upp á vantaði í gær. „Við ákváðum að leita til starfsfólks okkar sem er næst íbúum borgarinnar og þekkir þarfir þess og spyrja hvernig við náum þessum markmiðum okkar um hagræðingu án þess að skerða grunnþjónustu, hækka gjaldskrár eða segja upp starfsfólki,“ segir Hanna Birna. Um 1.500 hugmyndir bárust og verða um 300 þeirra nýttar nú strax. „Alls tóku 3.000 starfsmenn þátt í vinnunni og verður henni framhaldið meðal annars þannig að þeir geti fylgst með framgangi eigin tillagna.“ Meðal annarra leiða sem beita skal eru að draga úr sérfræðiþjónustu, draga úr kostnaði við aðkeypta þjónustu, reyna að ná hagstæðari samningum við birgja með því að samnýta innkaup margra sviða og stofnana og draga úr viðhaldsframkvæmdum.

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem einnig á sæti í framkvæmda- og eignarráði, er ekki alls kostar sátt. „Þetta er ekki í miklu samræmi við það sem rætt hefur verið um til þessa,“ segir hún. „Ég bíð reyndar eftir frekari upplýsingum um það hvernig þessu verður háttað en ég get nú þegar sagt að mér líst illa á það að miklu af niðurskurðinum á að fást með því að skera niður mannaflsfrekar viðhaldsframkvæmdir sem skýtur skökku við þar sem meirihlutinn hefur talað fyrir því að efla atvinnustigið.“

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×