Innlent

Rjúpnaveiðitímabilið hefst 27. október

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tveimur helgum verður bætt við rjúpnaveiðitímabilið í ár en á móti kemur að veiðihelgar verða styttar úr fjórum dögum í þrjá. Því verða veiðidagar átján eins og í fyrra. Nú verður veiði heimil á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og tímabilið hefst frá og með 27. október og stendur til og með 6. desember, samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra.  Sú nýbreytni hefur orðið að nú er gert ráð fyrir að reglugerðin gildi til þriggja ára, nema að óvænt þróun verði í rjúpnastofninum á þeim tíma.

Ákvörðun umhverfisráðherra byggir á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og mati Umhverfisstofnunar á heildarveiði árið 2008. Að mati Náttúrufræðistofnunar er fækkun í rjúpnastofninum sem hófst 2005 og 2006 afstaðin og vöxtur í stofninum sem vart varð um austanvert landið í fyrra nær nú til alls landsins. Sóknarskerðing sem ákveðin var haustin 2007 og 2008 kann að hafa haft þessi áhrif að mati stofnunarinnar, en veiðidögum var þá fækkað í átján. Stofnunin lagði því til að sóknargeta yrði ekki aukin umfram átján daga.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×