Íslenski boltinn

Ólafur: Nú henda þeir mér út hjá Kúagerði og ég hleyp heim í Kópavog

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks var mjög ánægður með stigin þrjú sem lærisveinar hans tóku með sér frá Keflavík í kvöld. Blikar eru því komnir í ágæta fjarlægð frá fallsætunum eftir tvo sigurleiki í röð.

"Ég er mjög sáttur við stigin, sáttur með að við skyldum skora fleiri en eitt mark og mér fannst leikurinn vel spilaður taktískt hjá okkur. Við vorum svolítið staðir í fyrri hálfleik en í þeim síðari var miklu meiri hreyfanleiki og við sköpuðum okkur fleiri færi. Þannig að ég er mjög ánægður" sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks í samtali við Vísi.

"Öll vörnin var geysilega öflug. Miðverðirnir mjög öruggir, Elfar frábær og Guðmann kemur inn og er frábær líka. Bakverðirnir Árni og Kristinn voru mjög traustir, Keflvíkingar komust aðeins á bakvið okkur upp í hægra hornið í fyrri hálfleik en ekkert sem olli okkur vandræðum," bætti Ólafur við.

Athygli vakti að Kári Ársælsson fyrirliði Blika var á bekknum í kvöld en miðverðirnir sem spiluðu í hans stað áttu frábæran leik.

"Kári þarf eins og aðrir á hvíld að halda. Hann er búinn að spila alla leikina fyrir okkur, fyrir utan bikarleikinn gegn Hvöt, og mér fannst hann vera orðinn pínulítið þreyttur. Þetta var einfaldlega smá tilfæring og með Guðmann, Elfar og Kára þá erum við í góðum málum," sagði Ólafur.

Þann 9.ágúst 2007, nákvæmlega fyrir tveimur árum, þá spiluðu þessi sömu lið á þessum sama velli og það sem meira er þá voru úrslitin þau nákvæmlega sömu, 3-0 sigur Blika.

"Þetta er skemmtilegt. Ég fletti þessu upp í bók sem ég skrifa alltaf í til að undirbúa mig fyrir leikina, sagði strákunum þetta og það er skemmtilegt að þetta beri upp á sama dag. Á næsta ári er 9.ágúst ekki á sunnudegi og því ólíklegt að við spilum hérna að ári, þar sem við spilum flesta okkar leiki á sunnudögum. En ég er til í að koma hér aftur" sagði Ólafur í léttum tón.

Mikil öskur og læti bárust frá klefa Blika þegar Ólafur gekk þar inn eftir leikinn og þegar að var gáð kom í ljós að hann hafði lagt undir 20 kílómetra hlaup í bæinn ef sigur ynnist.

"Eftir svona sigur er gaman að hlaupa 20 kílómetra. Nú henda þeir mér út hjá Kúagerði og ég hleyp heim í Kópavoginn," bætti Ólafur við að lokum og rauk inn í klefa að undirbúa hlaupið heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×