Innlent

Á endanum skipt í krónur

Upplýsingar Engar upplýsingar hafa borist um stöðu á gjaldeyrisreikningum síðustu þrjá mánuði. Fjármálaráðherra á von á þeim tölum fljótlega.Fréttablaðið/gva
Upplýsingar Engar upplýsingar hafa borist um stöðu á gjaldeyrisreikningum síðustu þrjá mánuði. Fjármálaráðherra á von á þeim tölum fljótlega.Fréttablaðið/gva

Ljóst er að þeirrar tilhneigingar gætir hjá útflutningsfyrirtækjum að geyma gjaldeyri á gjaldeyrisreikningum í stað þess að skipta honum í krónur, sem hjálpar ekki við að styrkja gengi krónunnar, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

„Gjaldeyririnn er auðvitað til staðar þótt hann sé inni á þessum gjaldeyrisreikningum, svo hann mun skila sér, þótt síðar verði. Þetta verkar þá meira eins og töf á það að hann komi inn á markaðinn, en hann er auðvitað ekki tapaður, á endanum kemur að því að fyrirtækin þurfa að nota hann,“ segir Steingrímur.

Vissulega geti fyrirtækin notað fé af gjaldeyrisreikningum til að greiða erlendar skuldir, en það komi þá í sama stað niður og ef þau hefðu skipt gjaldeyrinum í krónur til þess eins að skipta honum til baka til að greiða erlendar skuldir, segir Steingrímur. Hann vildi ekki tjá sig um hvort gera þurfi einhverjar breytingar á gjaldeyrishöftunum vegna þessa, og hverjar þær breytingar gætu orðið.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær lá andvirði um 173,5 milljarða króna á gjaldeyrisreikningum íslenskra fyrirtækja í maí síðastliðnum. Ekki fengust upplýsingar um það hjá Seðlabankanum hver staðan var síðustu þrjá mánuði. Steingrímur sagði að vissulega væri heppilegt að birta þessar tölur oftar, en bankinn hljóti að birta þær um leið og hægt sé.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×