Innlent

Segir hugmyndir um upptöku aflaheimilda skapa óróa

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ gagnrýndi harðlega hugmyndir um upptöku aflaheimilda á aðalfundi LÍÚ í dag og sakaði stjórnvöld um að skapa óróra innan sjávarútvegsins með því að kasta fram svo óútfærðum hugmyndum. Hann sagði óvissuna samfara þeim þegar hafa valdið tjóni.

Adolf sagði að það væri nauðsynlegt að hverfa án tafar frá upptökuleiðinni. Raunsæi og heilbrigð skynsemi yrði að ráða för. Ræðan í heild er birt á vefsíðu LÍÚ.

„Eftir að kvótakerfinu var komið á og sérstaklega með tilkomu frjálsa framsalsins 1991 tók við mikið umbyltingarskeið í íslenskum sjávarútvegi. Viðvarandi taprekstur vék fyrir hagræðingu og arðsemi. Það er á grundvelli þessarar umbyltingar að stærstur hluti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja mun standa af sér þær hamfarir sem á þeim hafa dunið á undanförnu," sagði Adolf í ræðu sinni á aðalfundi útvegsmanna í dag.

Í ræðu sinni gerði Adolf einnig að umtalsefni þá neikvæðni sem einkennt hefur umræðu um sjávarútveginn í kjölfar efnahagshrunsins fyrir réttu ári og vitnaði máli sínu til stuðnings m.a. til ummæla félagsmálaráðherra og forseta ASÍ í síðustu viku og spurði: „Kæru félagar, sér einhver glitta í roðann í austri í þessum orðum?"

Aðildarumsókn Íslands að ESB var einnig á meðal umfjöllunarefnis í ræðu formannsins. Adolf sagði m.a.: „Afstaða okkar byggir á þeim grundvallarsjónarmiðum að Íslendingar fari einir með forræði yfir fiskimiðunum, hafi samningsforræði við skiptingu veiðiréttar úr deilistofnum og tali eigin máli á vettvangi alþjóðastofnana. Mikilvægt er að tryggja að arður af nýtingu auðlinda skili sér til íslensks samfélags."

Hann lauk umfjöllun um ESB með þessum orðum: „Ég er þess fullviss að þjóðin mun aldrei samþykkja aðildarsamning sem felur í sér afsal á yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×