Innlent

Vantrauststillaga samþykkt naumlega

Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékklands.
Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékklands.
Þing Tékklands samþykkti í gærkvöldi vantrauststillögu á minnihlutastjórn mið- og hægriflokka í landinu. Evrópusambandið segir stjórnarkreppu í Tékklandi ekki áhyggjuefni þó Tékkar séu nú í forystu fyrir sambandið.

Það voru sósíalistar og kommúnístar í stjórnarandstöðu á tékkneska þinginu sem lögðu fram vantrauststillöguna. Hún var samþykkt naumlega með hundrað og einu atkvæði af tvö hundruð. Fjórir stjórnarþingmenn greiddu atkvæði með tillögunni.

Hún var lögð fram eftir að ásakanir komu fram um að ráðgjafar Mireks Topolaneks, forsætisráðherra, hefðu reynt að koma í veg fyrir að sjónvarpsþáttur yrði sýndur þar sem sett var fram hörð gagnrýni á stjórnarandstöðuþingmenn sem höfðu ákveðið að styðja minnihlutastjórnina.

Stjórn Topolaneks situr þar til ný verður myndu. Vaclav Klaus, forseti Tékklands, mun veita stjórnarmyndunarumboð og getur gert það þrívegis áður en boða þarf til kosninga.

Niðurstaðan frá í gær getur haft töluverð áhrif ekki síst vegna þess að Tékkar eru í forystu fyrir Evrópusambandið þar til í lok júní þegar Svíar taka við. Auk þess hafa Tékkar enn ekki staðfest Lissabon sáttmálann um stjórnskipan Evrópusambandsins og óvíst hvaða stefnu það mál tekur með nýrri stjórn. Einnig eru Tékkar nú í viðræðum við Bandaríkjamenn um uppsetningu ratsjárstöðvar í Tékklandi sem yrði hluti af umdeildu eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Austur- Evrópu.

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Jiri Paroubek, leiðtogi Sósíal Demókrata, sagði áður en tillagan var samþykkt að stjórn Topolaneks gæti mögulega setið þar til Tékkar hefðu látið af forystu í Evrópusambandinu. Topolanek segist hins vegar ekki vilja leiða bráðabirgðastjórn.

Fulltrúar í Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telja niðurstöðuna frá í gær ekki áhyggjuefni. Enginn vafi leiki á því að Tékkland geti haldið áfram að gegna forystu í sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×